Afnotareglur
Afnotareglur gilda um alla hluthafa, flugnema og aðra sem starfrækja eða nýta flugvélar, flugskýli eða aðra aðstöðu. Frekari upplýsingar um reglur veitir framkvæmdastjóri félagsins.
- Flugvélar félagsins eru til afnota fyrir alla hluthafa Flugfélagsins Geirfugls ehf, fyrir það gjald sem ákveðið er af stjórn félagsins. Flugtími er innheimtur eftir tachometer. Einungis hluthöfum í félaginu er heimilt að skrá sig sem flugstjóra á flugvélunum. Sé um kennsluflug að ræða er skilyrði að flugkennarinn sé á vegum Geirfugls enda hafi hann verið samþykktur af yfirkennara. Eigi einhver annar flugmaður að vera skráður flugstjóri flugvélarinnar þarf hann samþykki framkvæmdastjóra eða stjórnar fyrir því, sem og að standast mismunaþjálfun með flugkennara félagsins.
- Fari flugtími á hlut á 12 mánaða tímabili yfir 60 klst bætist álag ofan á gildandi verðskrá flugvéla auk þess sem aðgengi takmarkast. Allir flugtímar teljast með í þessum útreikningi. Álag ofaná gildandi verðskrá er skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni. Aðgengi takmarkast þannig að handhafi hlutar sem kominn er með yfir 60 tíma sl.12 mánuði á undan, má í þeim mánuði aðeins bóka samdægurs. Stjórn getur, aðgengis annarra vegna, ákveðið að setja aðrar frekari takmarkanir á einstakar flugvélar félagsins.
- Framkvæmdastjóri félagsins sér um útleigu flugvéla til hluthafa í umboði stjórnar félagsins. Hann hefur heimild til að neita þeim hluthöfum sem eru í vanskilum við félagið um afnot af flugvél.
- Aðeins skal lent á skráðum flugbrautum.
- Verði slys eða óhapp skal tilkynna það til framkvæmdastjóra, eða flugvirkja í vaktsíma félagsins 866-1578 svo fljótt sem auðið er, sem og til viðeigandi yfirvalda. Tjón sem hlýst af gáleysi flugmanns greiðir hann að því marki sem tryggingar bæta ekki. Verði tjónið af ástæðum sem ekki verða raktar til sakar flugmanns greiðir félagið sjálfsáhættuupphæðina. Í því sambandi skal stuðst við niðurstöðu rannsóknar RNF.
- Ef dvalið er yfir nótt utan heimaflugvallar skal setja flugvélina í skýli (á kostnað flugmanns). Ef þess er ekki kostur skal ganga tryggilega frá flugvélinni, læsa stýrisflötum með stýrislás eða beltum og setja fyrir hjól flugvélarinnar. Þá skal binda hana tryggilega niður sé þess nokkur kostur.
- Í lok hvers flugs skal fært í dagbók flugvélar. Færa skal inn fartíma, flugtíma, brottfarar- og komutíma, flugtaks- og lendingartíma, hvaðan og hvert var flogið tachostöðu, hobbs stöðu, magn ásetts eldsneytis og olíu. Allt skal skrá skilmerkilega og staðfesta með einkennisstöfum viðkomandi flugmanns.
- Flugmaður flugvélar félagsins skal gæta fyllstu varúðar í meðferð flugvélarinnar, virða getutakmörk hennar og hafa hugfast að hann er að fljúga vél sem er eign hlutafélags og verður því að ganga hreinlega um hana, innan sem utan. Ef hún óhreinkast í meðförum hans skal hann undantekningalaust þrífa flugvélina án tafar. Bannað er þó að þrífa rúður með þurrum klútum þar sem það getur rispað rúðurnar. Nota skal vatn.
- Verði vart bilunar, eða telji flugmaður einhverra hluta ábótavant, skal skrifa athugasemd í flugdagbók vélarinnar og gera framkvæmdastjóra viðvart í vaktsíma: 866-1578 svo viðgerð verði við komið án tafar.
- Fyrir hvert flug skal flugmaður ástandsskoða flugvélina gaumgæfilega. Gæta skal þess hvort athugasemdir hafi verið færðar í dagbók flugvélar vegna fyrra flugs. Bent skal á að sé þessa ekki gætt má flugmaður búast við að vera krafinn um greiðslu vegna skemmda sem næsti maður uppgötvar og færir í dagbók vélarinnar. Gleymið því ekki ástandsskoðun fyrir og eftir flug og athugið vel flugdagbók flugvélarinnar.
- Hver hluthafi hefur rétt á að bóka þrjú skipti fram í tímann. Heildarbókunartími má ekki fara yfir 72 klst.
- Ef farið er út á land og dvalist yfir nótt reiknast ekki biðtímagjald ef floginn er a.m.k 1 flugtími á sólarhring en annars er gjaldið (biðtímagjald) samsvarandi einum flugtíma fyrir hvern dag. Hámarkstími bókunar er 72 klst. Framkvæmdastjóri getur heimilað frávik frá þessari reglu. Ef veður hamlar heimflugi getur framkvæmdastjóri fellt biðtímagjald niður. Undir öllum kringumstæðum skal hafa samband við framkvæmdastjóra og sömuleiðis skal notandi vélarinnar sjá um að tilkynna þeim sem höfðu skráð sig á vélina á eftir honum um breytta flugáætlun. Bókunarsími er: 5520101. Hægt er að bóka í gegnum síma eða á heimasíðu félagsins http://www.geirfugl.is undir flugumsjón. Sé viðkomandi ekki mættur 15 mínútum eftir tilgreindan bókunartíma telst flugvélin laus til afnota fyrir aðra meðlimi. Skráða komutíma skal virða. Fari komutími fram yfir bókaðan tíma skal framlengja bókun tafarlaust eða láta næsta mann vita af áætluðum komutíma.
- Þeim hluthöfum sem ekki hafa flugpróf er heimilt að læra til A-prófs á vegum félagsins. Fyrir hvern tíma sem þeir fljúga í kennsluflugi skal greiða auk venjulegs tímagjalds aukaþóknun skv. gildandi verðskrá, hvort sem um er að ræða flug með flugkennara eða sóló. Tímar flognir í kennsluflugi til A-prófs koma aðeins að hálfu til skerðingar á kvóta.
- Æfinga- eða kennsluflug með kennara hjá þeim sem náð hafa A-prófi telst aðeins að hálfu til skerðingar á kvóta, enda sé innheimt flugkennaragjald af öllu fluginu.
- Mökum hluthafa og afkomendum er heimilt að læra til sólóprófs hjá félaginu án þess að ganga í klúbbinn. Fyrir hvern tíma sem þeir fljúga í kennsluflugi skal greiða aukaþóknun skv. gildandi verðskrá. Tímar flognir skv. þessari grein koma aðeins að hálfu til skerðingar á kvóta.
- Áður en flugmaður fær að bóka og fljúga vél skal flugmaður hafa lokið kynningu á verklagsreglum félagins hjá flugkennara og fara í flug með flugkennara og sýna fram á hæfni sína.
- Flugmönnum er óheimilt að fljúga flugvélum félagsins sem flugstjórar nema þeir sýni fram á að þeir hafi lokið viðeigandi þjálfun á þær. Sé mismunaþjálfunar krafist skal flugmaður undantekningalaust fara í flug með flugkennara og sýna flugkennara fram á hæfni sína áður en hann fær rétt til að fljúga viðkomandi tegund.
- Flugmaður sem ekki hefur áður lokið skiptiskrúfu-mismunaþjálfun skal áður en hann fær að fljúga vél með skiptiskrúfu hjá félaginu ljúka mismunaþjálfun samkvæmt kennsluáætlun félagsins. Flugmanni er ekki heimilt að fljúga sem flugstjóri fyrr en flugkennari telur hæfni flugmanns fullnægjandi.
- Líði meira en 90 dagar, án flugs, frá lokum mismunaþjálfunar, hvort heldur er skiptiskrúfu- eða stélhjóls-mismunaþjálfun, skal viðkomandi fara í æfingaflug með kennara.
- Sérreglur fyrir stélhjól:
- Undantekningalaust skal flugmaður sem áður hefur lokið stélhjóls-mismunaþjálfun fara í flug með flugkennara og sýna fram á hæfni sína áður en hann fær að fljúga stélhjólsvél félagsins. Flugmanni er ekki heimilt að fljúga sem flugstjóri fyrr en flugkennari telur hæfni flugmanns fullnægjandi.
- Flugmaður sem ekki hefur áður lokið stélhjóls-mismunaþjálfun skal áður en hann fær að fljúga stélhjólsvél félagsins ljúka mismuna-stélhjólsþjálfun samkvæmt kennsluáætlun félagsins. Flugmanni er ekki heimilt að fljúga sem flugstjóri fyrr en flugkennari telur hæfni flugmanns fullnægjandi.
- Hafi flugmaður sem áður hefur sýnt fram á hæfni sína skv. A- og b- lið flogið stélhjólsvél minna en 6 flugtök og lendingar sl. 6 mánuði er honum óheimilt að fljúga stélhjólsvél félagsins fyrr en hann hefur sýnt fram á hæfni sína skv. a-lið aftur.
- Undantekningalaust skal flugmaður sem áður hefur lokið stélhjóls-mismunaþjálfun fara í flug með flugkennara og sýna fram á hæfni sína áður en hann fær að fljúga stélhjólsvél félagsins. Flugmanni er ekki heimilt að fljúga sem flugstjóri fyrr en flugkennari telur hæfni flugmanns fullnægjandi.
- Brjóti hluthafi gegn þessum reglum getur stjórn félagsins svipt hann tímabundið afnotarétti af flugvélum félagsins. Séu brot hins vegar ítrekuð og/eða alvarleg má svipta viðkomandi afnotarétti varanlega.
Samþykkt af stjórn Flugfélagsins Geirfugls ehf.
Reykjavík 17.ágúst 2004